Skyldi vera fnykur?

Forseti vor tók við tövukeyrðum undirskiftarlista tugþúsunda gegn Icesave. Gott mál ef heiðarlega hefur verið unnið. Það stingur þó í augu að nöfn listamanna liggja ekki á lausu og virðist einhver bankaleynd yfir málinu. Það getur hver sem er skrifað nöfn og kennitölur inn á söfnunarlista og meðan leynd hvílir yfir nöfnum listamanna er gjörðin varla  marktæk.

Hver er vandinn?

Þjóðin á fiskinn í sjónum, hver er þá vandinn? Menn hafa ráðstafað þessum afnotum sín í milli og veðsett eftir hendinni og nú er komið að skuldadögum. Það er vel í lagt að gefa útgerðamönnum kost á að hreinsa veð sín af kvótanum og aðlagast á tuttugu árum. Ef sæmilegur rekstur er á þeirra fyrirtækjum er málið létt . Stjórnarflokkarnir verða að standa við loforðið um vafalaust aðgengi og yfirráð þjóðarinnar að auðlindinni.

Kosningaloforð standi.

Ríkisstjórn sú sem nú er við völd gaf loforð um að vernda fjöregg þjóðarinnar. Fjöldi veitti Samfylkingunni brautargengi á þeirri forsendu að öllum vafa um fiskveiðiheimildir yrði eytt. Nú stöndum við frammi fyrir því að ráðherra sjávarútvegsmála er að hopa og boðar sáttarfrumvarp innan skamms tíma. Við höfum ekki efni á eftirgjöf, ef útgerðafyrirtæki ráða ekki við 5% afskrift á nýtingarrétti er þörf á að skipta út fólki. Tug milljarða skuldir hafa verið afskrifaðir hjá kvótagenginu þó krónan sé fallin og enn er vælt.  Fiskveiðiréttindi hafa verið veðsett fyrir hundruð milljarða og mestur hluti erlendum aðilum. Við munum hvernig ónefndir keyptu og seldu flugfélag sín í milli og náðu að veðsetja ekki neitt upp úr öllu valdi. Krafan hlýtur að vera að staðið verði við kosningaloforðið um óumdeild yfirráð þjóðarinnar yfir fiskveiðiheimildum .

Barnaskapur.

Fylgdist undrandi með framgangi Besta flokksins í vor, skildi ekki hvað fólk var ginkeypt þrátt fyrir skiljanlega uppgjöf á ýmsum pólitíkusum. Auðvitað vonaði maður þegar upp var staðið og ósköpin blöstu við að Besti flokkurinn myndi eins og aðrir flokkar  svíkja kosningaloforð sín. Því miður var loforðið um aukna hagsæld valdra vina og stuðningsmann sett í öndvegi. Eftir standa varnarlausir borgarar og skilja ekki hví þeir séu látnir borga brúsann. Sundlaugaferðir eru skertar, strætisvagnaferðir hækkaðar og skertar og barið á alla vegu á  þeim sem minnst hafa aflögu í þjófélaginu. Djók? Djók er dýrt þegar það er sótt í vasa þeirra sem minnst mega sín. Þó nokkrir forráðamenn bb hafi komist að kjötkötlunum og njóti djóksins þá hefur enn syrt í álinn hjá borgarbúum. Í ágætuum flutningi hljómlistamanna hljómuðu orðin fólk er fífl... Haldi  bb  að ómyndinni verði fagnað í þingkosningum þá er trúin á gullfiska minnið ofursterk.

Nú er tími eindrægni.

Það er fúlt að sjá Besta flokkinn og Samfylkinguna komna í hagsmunagrafirnar. Hafi einhverntímann verið tækifæri til að hreinsa til og taka höndum saman þar sem hver gætir annars er það í dag. Að sjálfsögðu gekk Besti flokkurinn til kosninga undir því fororði að skapa forystumanni sínum góða vinnu og vinum hans betri tíð. Bara grín hélt maður en það virðist staðreynd.  Í stað þess að fylkja öllum borgarfulltrúum til baráttu fyrir þá sem í  borginni búa virðist einkavina og ágóðareglan ætla að verða í fyrirrúmi.   

Er ekki allt í lagi.

Þjóðin virðist vera að fara á límingunni vegna láns sem Jón Ásgeir var að fá. Sé þetta ekki kúlulán sem við þurfum að greiða, sé ég ekki ástæðu til upphrópana. Vilji einhver lána Jóni Ásgeiri þá er það vel meðan það kemur ekki við pyngju almennings.

Hagsmunagæslan blífur.

Verkalýðsrekendur úr hópi atvinnurekenda og ASÍ stóðu vörð um hagsmuni sína, ráku einn en sitja áfram. Sé ekki hægt að skipta liðinu út er full ástæða til að stofna sjóð sem eigendur hafa stjórn á og færa réttindi sín í hann. Að fjöldi geti mætt á aðalfund án þess að hafa nokkur ráð um framgang sinna mála er ólíðandi. Það er lífsspursmál að hrekja geðþótta liðið frá jötunni og hætta að gefa á garðann. Líferyissjóðinn undir stjórn eiganda.

Burt með stjórnir lífeyrissjóðanna.

Nú stendur til að höggva í knérunn á ný. Lífeyrisgreiðslur verða skertar og ástæðan er sögð lengri lífaldur þjóðarinnar.  Hvílíkt andskotans kjaftæði , ástæður skerðingar eru borðliggjandi, annarsvegar glópska og svo græðgi stjórnenda lífeyrissjóðanna. Er ekki tími til kominn að sjóðsfélagar reki alla sukk stjórnendur á braut og taki völdin í sínar hendur. Sjóðsfélagar og eigendur  kjósi nýjar stjórnir og búi svo um hnúta að hóflegar greiðslur fyrir störf verði innleiddar og stjórnarseta verði  að hámarki 4 ár án hvíldar. Burt með glópana ,burt með sukkarana.


Nú fá þeir á baukinn.

Bretarnir er settu á okkur hryðjuverkalög með ómældum erfiðleikum fyrir þjóðina, sitja nú undir öskulögum frá Eyjafjallajökli. Í hálfkæring mætti ætla að landvættirnir væru að launa gráan belg fyrir rauðan. Skýrslan sem tekur hug okkar þessa dagana  gæti hraðað refsingarferli gagnvart útrásarglópum og bankastjórum og væri það vel. Hún tekur jafnframt harkalega á stjórnmálamönnum og er ekki að vita hvernig þróun gagnvart þeim verður, en veður eru válynd.

Frábær vinnubrögð.

Var farinn að örvænta þar sem skýrsla ofurnefndarinnar hafði dregist von úr viti. Óttaðist að hin öfluga samtygging sem hefur helriðið þjóðinni væri með puttana nálægt frágangi. Svo reyndist ekki og í ljós kom að enn á  þjóðin vinnusamt og heilsteypt fólk sem hefur metnað til að skila frábærri vinnu. Hefði farið betur ef þeir sem báru ábyrgð á að hefta undanskot útrásarglópana síðustu mánuði hefðu unnið af viðlíka samviskusemi að sínum verkefnum. Undarlegt að heyra einn þeirra tala um að hraði við tæmingu bankareikninga og undanskot eigna hafi komið á óvart .  

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband